Gisting

Á Skjöldólfsstöðum er rekið gistiheimili með 31 uppábúnu rúmi í 15 herbergjum og 5 svefnpokaplássum með aðgangi að eldhúsi. Þar eru 2 eins manns herbergi, 11 tveggja manna herbergi, 1 þriggja manna og 1 fjögurra manna herbergi.
Hægt er að fá barnarúm. Sameiginleg baðaðstaða og innifalinn er aðgangur að heitum potti og sundlaug.

Veitingar

Veitingasala er á Skjöldólfsstöðum með bæði mat, kaffi og áfengi ásamt gosi, ís og sælgæti. Á matseðli er meðal annars matur úr Héraði – silungur, lamb og hreindýr. Hægt er að fá hreindýrabollur, kjötsúpu, hreindýra- og lambaborgara, steikur og fleira. Með kaffinu er boðið upp á heimabakað bakkelsi. Á neðri hæð veitingasalar er barnahorn með sjónvarpi, dvd-spilara, leikföngum, dýnum og púðum. Á staðnum fást einnig minjagripir úr Héraði.

Viðburðir

Ýmsir viðburðir eru ár hvert haldnir á Skjöldólfsstöðum. Fyrstu helgina í júní er árleg opnunarhátíð með ýmsum viðburðum fyrir börn og fullorðna. Næstum árlega er haldið upp á afmæli Hákonar Aðalsteinssonar skálds þann 13. júlí. Fyrstu helgina í september er dansleikur sem Geirmundur Valtýsson hefur spilað á síðustu 20 ár.
Að auki eru viðburðir sem eru auglýstir sérstaklega.

Hákonarstofa

Í kringum aldamótin dvaldi Sigrún Benediktsdóttir, eiginkona Hákonar Aðalsteinssonar, í Þrændalögum í Noregi þar sem hún vann við skógarhögg. Þar sá hún tjald sem norskir skógarbændur höfðu smíðað. Skömmu síðar byggðu Hákon og Sigrún tjald í þessum stíl á Húsatanga í Fljótsdal þar sem sagan segir að Lagafljótsormurinn sé bundinn við festar. Þar var Hákon reglulega með uppákomur, sögustundir og fleira en ferjan Lagarfljótsormurinn sigldi þangað með ferðamenn frá Egilsstöðum og Atlavík. Eftir að Hákon lést þá reisti Stefán Geir Stefánsson, veiðifélagi Hákonar og vinur, Hákoni þetta minnismerki á Skjóldólfsstöðum. Hákonarstofa var vígð við hátíðlega athöfn sumarið 2009.

HákonarstofaHákonarstofaHákonarstofa

 

 

Tjaldstæði

Við Skjöldólfsstaði er rúmgott tjaldsvæði með aðgangi að rafmagni. Aðgangur að sturtum, heitum potti og sundlaug eru innifalinn. Í Hákonarstofu sem staðsett er á tjaldsvæðinu er hægt að sitja við opinn eld og orna sér á fallegum sumarkvöldum. Ekki gleyma gítarnum.

Sundlaug

Lítil sundlaug og heitur pottur með góðri sturtuaðstöðu er á Skjöldólfsstöðum. Aðgangur er frír.
Sundlaugin og heiti potturinn voru áður staðsett á Egilsstöðum en keypt og flutt til Skjöldólfsstaða árið 1996.

Veislusalur

Góður veislusalur er á Skjöldólfsstöðum sem tekur allt að 120 manns í sæti. Þar er tilvalið að halda brúðkaup, afmæli, fermingar, erfidrykkjur, árshátíðir, dansleiki, fundi, ráðstefnur og fleira.
Góð aðstaða er til að sýna hverskyns myndir og halda fyrirlestra en skjávarpi og tjald eru á staðnum.